Um námskeiðið

Sáttar- og atferlismeðferð (SAM)

Lifðu betur er sjálfshjálparnámskeið sem fer alfarið fram á netinu. Hver aðgangur er opinn í 10 vikur og getur hver og einn farið í gegnum námskeiðið á sínum hraða og forsendum innan þess tímaramma.

Námsefnið er sett fram í þremur köflum sem nefnast Sátt, Vitund og Virkni. Hver hluti námskeiðsins er kenndur með stuttum myndbandsfyrirlestri, nokkrum blaðsíðum af lesefni, verklegum æfingum í vinnubók og núvitundaræfingum á hljóðskrá. Námskeiðið byggir á vísindalega viðurkenndri aðferð sem nefnist sáttar- og atferlismeðferð og fræðast má nánar um hér að neðan.

Sáttar- og atferlismeðferð eða SAM (á ensku Acceptence and Commitment Therapy eða ACT) er sálfræðileg meðferðarnálgun eða tegund af samtalsmeðferð. Eins og nafnið bendir til er um að ræða atferlismeðferð sem þýðir einfaldlega að áherslan er á hegðun og til grundvallar liggur sú hugmynd að til að bæta líðan sé árangursríkast að breyta hegðun. SAM tilheyrir því sama flokki sálfræðilegra meðferða og Hugræn atferlismeðferð (HAM) og á margt skylt með þeirri nálgun.

Í raun er nafn meðferðarinnar nokkuð lýsandi. Í sáttarhlutanum er lögð áhersla á að samþykkja og gangast við þeim hlutum í tilverunni sem við fáum einfaldlega ekki breytt. Þá þarf fyrst að átta sig á því hvað það er sem við getum ekki stjórnað og, að sama skapi, hverju við getum stjórnað. Í SAM er litið svo á að erfiðar, óþægilegar og stundum sársaukafullar hugsanir og tilfinningar séu óhjákvæmilegur hluti af mannlegri tilvist. Því fáum við ekki breytt. En í SAM er hægt að læra sálfræðilega færniþætti sem gera okkur mun betur í stakk búin til að bregðast við erfiðum hugsunum og tilfinningum og draga úr áhrifum þeirra. Sú færni miðar ekki af því að breyta hugsunum sem slíkum, það er innhaldi þeirra, heldur mun frekar að breyta sambandi okkar við eigin hugsanir og tilfinningar. Þessir færniþættir, sem kallast meðal annars aftengjun og fúsleiki, samræmast iðkun núvitundar. Í köflunum um Sátt og Vitund á Lifðu betur námskeiðinu er unnið sérstaklega með þessi færniþætti og hvernig iðkun núvitundar styður við og eflir þá.

Í atferlishlutanum er lögð áhersla á að styðja fólk við að hegða sér sem allra mest í samræmi við sín lífsgildi. Til þess þarf fólk fyrst að átta sig á hvað það er sem skiptir það mestu máli í lífinu. Í SAM er það sem skiptir okkur miklu máli einfaldlega kallað lífsgildi. Í kjölfar þess að fólk skilgreinir lífsgildi sín er markvisst unnið að því að reyna að breyta hegðun í þá átt að hún samræmist sem allra best þessum lífsgildum. Í kaflanum um Virkni á Lifðu betur námskeiðinu er unnið að því að skilgreina lífsgildi og skoða hversu vel hverjum og einum gengur að haga lífi sínu í samræmi við þau. Einnig er unnið að því að setja sér markmið til að auka hegðun í samræmi við lífsgildi og hvernig aðferðir úr köflunum um Sátt og Vitund nýtast til að vinna með erfiðar hugsanir og tilfinningar sem gætu hamlað því að hegðun fólks sé í samræmi við lífsgildi þess.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að þessir meðferðarþættir vinna vel saman og auka lífsgæði, lífsgleði og vellíðan þeirra sem tileinka sér þá.

Meginmarkmið SAM er að auka svokallaðan sálrænan sveigjanleika (e. Psychological flexibility). Sálrænn sveigjanleiki er sá hæfileiki að vera til staðar hér og nú með öllum hugsunum sínum og tilfinningum og að velja að gera það sem er árangursríkt í þessum aðstæðum. Með öðrum orðum er sálrænn sveigjanleiki að hegða sér í samræmi við lífsgildi sín þó það sé stundum erfitt og óþægilegt. Allir kaflarnir og færniþættirnir í SAM vinna saman að því að auka sálrænan sveigjanleika.

Manneskja sem hefur mikinn sálrænan sveigjanleika er fær í því að tengja við augnablikið og vera meðvituð um líðan sína. Hún er fús til að leyfa óþægilegum tilfinningum að vera til staðar og nær að aftengjast óhjálplegum hugsunum sem láta á sér kræla. Hún þekkir lífsgildi sín og nær að haga sér í samræmi við þau og markmiðin sem hún hefur sett sér í samræmi við gildin.

Til samanburðar er manneskja sem hefur lítinn sálrænan sveigjanleika oftast á sjálfsstýringu og týnd í hugsanasúpu sinni um framtíðina og fortíðina. Hún er oftengd hugsunum sínum og tekur þeim bókstaflega. Hún er föst í því að finna leiðir til að losna við eða draga sem mest úr óþægilegum tilfinningum. Hún er dæmir sjálfa sig og aðra. Hún þekkir ekki lífsgildi sín og hefur óskýr markmið sem hún reynir þó stundum að nálgast, en bara þegar það er auðvelt og hentugt.

Sálrænn sveiganleiki (og skortur á honum) hefur verið mikið rannsakaður og sýna niðurstöður þeirra rannsókna að lítill sálrænn sveiganleiki einstaklings spáir fyrir um: Meiri kvíða, meira þunglyndi, alvarlegri geðræn einkenni, slakari frammistöðu í vinnu, námsvandamál, áfengis- og vímuefnavandamál, meiri áhyggjur, lakari lífsgæði og langtíma örorku. Með öðrum orðum er alveg ljóst að líkurnar á nánast öllum mannlegum vandamálum aukast með litlum sálrænum sveigjanleika. Það er því til mikils að vinna.

Upphaflega er SAM hannað af bandaríska sálfræðingnum Steven C. Hayes. Fyrsta rannsóknin þar sem árangur SAM var metinn í þunglyndismeðferð birtist árið 1982. SAM er í þeim skilningi því varla ný. Næsta árangursrannsókn birtist þó ekki fyrr en rúmum fimmtán árum seinna. Í millitíðinni var unnið markvisst að grunnrannsóknum á þeim fræðum sem liggja til grundvallar SAM og Hayes og félagar töldu nauðsynlegt að vinna þá grunnvinnu til að geta þróað meðferðina. Fyrsta bókin um SAM, Acceptance and Commitment Therapy: An Experiential Approach to Behavior change eftir Hayes, Strosahl og Wilson kemur út 1999 og í kjölfarið hefur aðferðin verið mikið rannsökuð og náð hraðri útbreiðslu.